Forskaren

Saturday, February 26, 2005

Frelsi og firring

Má ég kasta einni spurningu fram? Hvað er frelsi? Og er einhver frjáls? Svör óskast takk. Það er ekki hollt að fara í of marga heimspekitíma, maður er farin að skilgreina allt útfrá heimspekilegu sjónarhorni og á meðan gleymir maður grundvallarhugtökum úr bókmenntafræðinni eins og Thesis og hvað Hvörf heitir á grísku. Sko, þetta á ekki góðri lukku að stýra. Mér er alveg sama um fallegu heimspekistúdentana, ég tek ekki fleiri heimspekikúrsa. Má ég frekar biðja um órakaða og skítuga bókmenntastúdenta sem trúa ennþá að bókmenntirnar geti frelsað heilu þjóðirnar (ekki að biblían hefur nú ,,frelsað" ansi marga, en í veruleikanum heitir það að höggva mann og annan) En hver er svosem frjáls? enginn segi ég, og svona fyrst við erum byrjuð á þessu, þá er ég líka búin að komast að því að enginn sannleikur er til... Nema ef það væri til í tattooblöðunum hennar Grumpu, eða kannski í In Style blöðum Forskarans sjálfs.
En svona talandi um órakað fólk og ófrelsi yfirhöfuð, þá má ég spyrja, hvað er málið með strætóbílstjóra? Ég tek það fram að þó ég sé ekki órakaður og skítugur nemi, þá er ég nemi engu að síður og neyðist þess vegna til þess að sitja í þessum skrapatólum sem hafa örugglega verið keypt á uppboði hjá Talibönum í Afganistan, ólíkt sumum vel stæðum húsmæðrum sem keyra um götur borgarinnar á jeppa eða á nýjustu smábílunum. En hvað sem öfund minni líður út í húsmæðurnar, þá verð ég vitni af ýmsum manngerðum í strætó og ég er búin að komast að því að bílstjórarnir eru örugglega sérstaklega fluttir inn af Vog, Litla Hrauninu, Catalinu (í Kópavogi) eða af morðingjaheimilinu austan fyrir fjall. Hér er spurningarlisti sem ég held að þessir menn þurfa að svara áður en þeir fá að prufukeyra die grossen spritzen Autobus:
Ef svarið er Já við einni spurningu þá fær sá hinn sami ekki að keyra strætó í RVK.

1. Hefur runnið af þér seinasta hálfa árið?

2. Ertu búin að fara í bað á þessu ári?

3. Ertu búin að segja ,,Góðan daginn" við nokkurn mann síðan um Jólin?

4. Hefurðu skipt um föt síðan 2003?

5. Hefurðu borðað eitthvað annað en Mcdonalds og Dominos síðan 1994?

6. Ertu með bílpróf?

Monday, February 21, 2005

Cosmogirl

Jæja, helgin afstaðin og eins og segir á síðum hinnar víðfrægu Grumpu, þá var brugðið af vananum á laugardagskvöldinu og Húsfrúin í Vogunum heimsótt með mikilli viðhöfn.
Þar upphófst mikil umræða um hvort væri betra; Sadómasókista, morðingja myndband með Marlyn Manson eða (ó)rómantískar klassískar ,,kvennamyndir" eins og Pretty Woman eða Love Actually (margir viðstaddir myndu reyndar kalla það efni fyrir sadómasókista).
En talandi um auðtrúa konur og annan ófögnuð, þá var ég á fyrirlestri í morgun um Cosmoblaðið og þar tóku tvær stúlkur til máls. Þær litu að sjálfsögðu báðar út eins og Cosmogirl og sóru þess dýran eið að þær þoldu ekki þessi ljótu blöð sem gerðu ekkert annað en að láta konum líða illa með sjálfan sig og að engin heilbrigð kona í dag liti tvisvar á þessi blöð. Og þá sérstaklega ameríska útgáfan. Það voru bara engar vitrænar greinar í ameríska Cosmoblaðinu!! En allavega í ensku útgáfunni, þá var eitthvað vitrænt í þessu öllu saman......Það er sko miklu betra að lesa breska Cosmoblaðið og maður verður einhvern veginn bara miklu vitrari af því. Já, einmitt. Maður kaupir að sjálfsögðu Cosmo því að manni langar svo að lesa eitthvað vitrænt. Af hverju ekki bara að koma út úr skápnum og viðurkenna að maður les/skoðar ekki þessi blöð til að öðlast þekkingu á heimsmálum. Hver er svona vitlaus að kaupa Cosmo til að fylgjast með því sem er að gerast í pólitíkinni í Evrópu?? Ég bara spyr í sakleysi mínu. Ég kaupi (reyndar ekki Cosmo) tískublöð til að skoða tísku. Búið basta. En dauðasynd Cosmostúlkunar með fyrirlesturinn er sá að viðurkenna að hún les Amerískt efni. Guð hjálpi elsku stúlkunni frá því. Ein hélt því meira að segja fram að við Íslendingar værum bara svona rosalega sjálfstæðir að við þurfum engan svona ófögnuð inn í okkar þjóðfélag. Það vantaði bara að einhver hefði hents upp úr sætinu og æpt: Lifi sauðkindinn og stelpur, aftur í plíseruðu pilsin!!
Hvernig er þetta með Íslendinga eiginlega? Erum við alveg að missa okkur í fordómana? Mér finnst Íslendingar næstum því fara fram úr Svíum í fordómunum. Má ég spyrja, hver er munurinn á því að Bandaríkjamaður er með fordóma gagnvart svarta manninnum eða mexíkananum, Írakinn með fordóma gagnvart öllum Vesturlandabúum eða Íslendingur með fordóma gagnvart Bandaríkjamanninum? Það er náttúrulega engin. Það eru bara allir eins og allir eru fullir af fordómum. Ég er til dæmis full af fordómum út í aumingjans fordómafullu stúlkuna sem þótti allt bara vera eitthvað svo asnalegt við þetta vitlausa Cosmoblað...

Friday, February 18, 2005

Samviska samtíðarinnar

Ég er að hugsa um að skipta um aðalfag í skólanum og fara frekar í heimspeki. Í þeirri grein er svo mikið til af gáfuðum og fallegum karlmönnum. Þar eru allir dökkhærðir (eins og ég vil hafa þá) og þar eru allir með falleg augu (hver vill það ekki???) Og svo hafa þeir allir eitthvað sniðugt að segja þannig að þú gleymir þér alveg í einlægum hlátri yfir sorg heimsins og brosir í gegnum tárin til hins örvæntingarfulla - en fallega - heimspekinema sem heldur fyrirlestur um Kierkegaard og hvernig heimurinn í dag er bara alveg við það að hrynja ofan á hausinn á öllum. Ég sé alveg í huga mér hvernig deit með svona íturvöxnum og íturmyndarlegum heimspekinema mundi fara fram. Fyrst talar maður illa um raunveruleikaþætti og lýgur því að hafa aldrei horft á Oprah og viti ekki einu sinni hver Jay Leno er. Svo er ég auðvitað sammála öllum fordómunum gagnvart Bandaríkjunum sem koma út úr honum og yfir matnum, víninu og kertaljósinu sannfæri ég hann um að þetta er eiginlega bara allt að verða búið bráðum og að Sören Kierkegaard (sem skrifaði nota bene ekki Gúmmítarzan) hafi alveg rétt fyrir sér. Það er eins gott að taka ástarstökkið áður en allt er um seinan. Þetta er hægt með fallega og hreinhugaða heimspekinemanum, á meðan bókmenntafræðineminn mundi túlka allt sem ég segði og allt auðvitað á einhvern feminískan eða semíótískan hátt. Ég myndi aldrei fá manninn út úr veitingarhúsinu einu sinni þar sem hann myndi ekki samþykkja að standa upp fyrr en búið væri að greina og túlka bæði Ugg og Ótta og Endurtekninguna eftir Kierkegaard. En það er auðvitað jafn óraunhæft eins og að ætla sér að bókmenntafræðineminn myndi fara að taka upp á því að klippa á sér hárið, laga gleraugun eða snyrta skeggið (sem nær honum orðið niður á maga).
Nei, ég held að ég fari bara í heimspekina. Hún er miklu einfaldari. Allir þessir menn sem um er rætt í tímum vita hvort sem er allt og hvernig allt gengur fyrir sig.
Annars er ég búin að komast að því að ég er svokallaður sínisti. En það er sá sem er bara búin að fatta að hlutirnir eru bara eins og þeir eru. maður hugsar kannski svona á morgnanna: ,,Hvað er þetta eiginlega, ekkert mun hvort sem er breytast í dag. Ég mun ekki verða allt í einu eins og Cyndi Crawford og ástin mín eina mun ekki fatta að ég er hin eina rétta handa honum og þess vegna mun hann koma hlaupandi í gegnum rigninguna til að segja mér að hann vilji bara mig eina (ég veit ekki af hverju það er alltaf svona mikil rigning í þessari pælingu hm...), heldur mun ég bara vera ég og það er bara fínt mál. Lifi sínistinn!

Wednesday, February 16, 2005

Veður dauðans

Góðan daginn! Akkurat á svona dögum á maður að hugsa hversu fallegt lífið er og hvað það var nú gott að liggja á ströndinni í Los Angeles fyrir ári síðan....(með kokteilinn í hendinni að sjálfsögðu). Þorrblóts-ælurokkspartýið seinasta laugardag heppnaðist með eindæmum vel og allir voru bara í músí fílíng nema einn ónefndur sem gekk um gólf með gítarinn á lofti eins og barefli og röflaði þessi heilu ósköp. Fólk heldur að það hafi verið útaf bjórtunnunni sem ónefndur hellti ekki bara upp í sig, heldur á sig líka.
En Forskaren þótti með eindæmum prúður og allir klöppuðu í lokin fyrir þessari framúrskarandi prúðmennsku. Það var mjög gaman að fá gamla vini í heimsókn og ekki verra að lúftgítarinn var meira að segja tekin og skoðanaskipti urðu um Titanic og Forrest Gump. Geri aðrir betur í dönnuðu rauðvínspartýi. The Músí man var sárt saknað en hann var víst í jakkarfötunum með spúsunni að borða kálfakjöt og annan ófögnuð á Broadway (Sorry! En hvað er Broadway eiginlega að gera á lífi ennþá????) Semsagt, allir skemmtu sér vel og úr þessu ágæta partýi varð meira að segja eitt deit næsta föstudag....fleiri fréttir seinna.
Ætli ekki sé komin tími til að lesa allt um Sören Kirkegaard (sem ónefndur hélt að hefði skrifað gúmmítarzan.....) og Hegel osv.
Prófið að Commenta á þetta blaður í mér og segið mér ef vel tekst til. Þetta á að vera komið í lag.

Sunday, February 13, 2005

Velkomin á heimili Forskarans

Halló Halló!!
Loksins lætur Forskaren verða að því að stofna sína eigin bloggsíðu. Það hefur lengi verið í bígerð en vegna anna og annara truflanna hefur ekki orðið að þessu fyrr en nú. Ég býð auðvitað alla velkomna á nýja bloggið sem kemur til með að fjalla um allt og ekki neitt. Hvað sem Forskaranum dettur í hug þá stundina verður tjáð hérna á þessum síðum. Þar sem Forskaren þykir með eindæmum málglaður og getur kjaftað sjálfan Jón Baldvin í kaf þá var þessi ákvörðun tekin að fara út á vefinn til að tjá sig. Þetta þýðir ekki lengur að vera að enda á trúnó alltaf hreint eða gera annan skandal. Ef maður ætlar sér að missa æruna, þá er náttúrulega miklu skynsamlegra að gera það bara hérna á síðum tölvunnar.