Forskaren

Friday, May 20, 2005

Eurovision og fleira

Hvað er málið með þennan Gísla Martein??? Finnst engum nema mér þessi maður vera algjörlega mesti loser í heimi. Ég ÞOLI EKKI ÞENNAN MANN!! Sko, ef ég einhvertíma rekst á hann niðri í bæ eða bara einhverstaðar (og mér er alveg sama þó það sé upp í sveit) þá ætla ég að kalla fúkyrði á eftir honum, eða eitthvað enn betra og gretta mig framan í hann og segja að hann líkist mest ofvöxnum átta ára krakka sem óverdósaði á rítalíni og sykri fyrir ca. 40 árum. Hann talar eins og hann hafi misst upp í sig helíumblöðru á stærð við loftbelg og svo talar hann bara, og þá meina ég BARA útfrá Íslandi. Það er eins og hann hafi aldrei heyrt um aðra menningu nema kannski þá í Svalbarða, Færeyjum og Vestmannaeyjum. Já, eins og lesendum er kannski orðið kunnugt um, þá er ég ekki mjög hrifin af þessum manni sem hrellir mig óhuggulega. Heyrði einhver í honum þegar hann var að lýsa Eurovision? Hvað er málið? Finnst einhverjum þetta virkilega flott eða krúttalegt? Er þetta ekki bara grín eins og með hann Herbert Guðmundsson hérna um árið? Ég trúi því bara ekki að einhverjum finnst þessi maður karlmannlegur eða að hann sé yfirleitt eitthvað fágaður. Ég er að hugsa um að fara af stað með undirskriftarsöfnun til þess að fá þennan mann af opinberum vettvangi og fá stjórnvöld til að læsa manninn inni í glerskáp í þjóðminjasafninu undir nafninu: Asnalegasti Íslendingurinn fyrr og síðar.
Svo ég haldi nú áfram að kvarta, þá er ég alveg búin að fá nóg af verðlaginu hérna á þessu landi. Kartafla er dýrari hérna á Íslandi heldur en krullujárn í Bandaríkjunum. Ef við erum svona frjáls og lýðræðisleg hérna, af hverju borgum við toll af sendingargjaldi? Hvernig er það hægt eiginlega? Nei, enginn kemst upp með það nema íslensk stjórnvöld. Það skiptir sér enginn af Íslandi og við getum þess vegna haldið uppi einhverjum Talibanareglum hérna og enginn tekur eftir því í hinum eðlilega heimi (sem er notabene Evrópa og USA). Ég er búin að fá alveg nóg af þessu einveldi hérna. Baugur á allt, fréttirnar, tískuna, sjónvarpið, matinn, tónlistina, listina og ég veit ekki hvað meira. Bráðum kaupa þeir sér örugglega háskóla svo að hægt sé að læra Baugssálfræði, stjörnubaugsfræði, Matarfræði, svindlspeki, Fréttabaugsfræði ofl. Svo er ekkert til hérna. Það er til ein tegund af lauk, ein tegund af svepp, ein tegund af bók og ein af bjór og svo ef maður vogar sér að finna upp á einhverju og reyna að bjarga sér með því að panta af netinu, þá leggja þeir 39373.- á allt. Ef ég kaupi mér litla minningarbók sem kostar 2 dollara, þá kostar tollurinn af því 39372.- og það er búið að brjóta næluna svona til að athuga hvort maður er nokkuð að smygla einhverju sem gæti verið bannað. Það er allt bannað hérna á Íslandi, nema lýsi og hákarl. Allt virðist vera svo hættulegt fyrir litlu Íslendingana. En má ég þá benda á eitt, Gísli Marteinn er hættulegur heilsu minni. Ég ætla að hringja í DV og segja þeim hvernig kerfið sveik mig.

Monday, May 16, 2005

Gleðilega Hvítasunnu

Jæja, búin að eiga þennan fína sunnudag. Brugðið var á það ráð að byrja daginn með einum góðum Brunch og Forskaren vaknaði að sjálfsögðu í bítið og bjó til hinar bestu kræsingar. Heimasætan hjálpaði reyndar ekkert til og ég þurfti að vekja hann af værum svefni þar sem hann lá og dreymdi að Amazonurnar væru að elta sig. En eftir brunchinn góða var hoppað upp í bíl og keyrt til Eyrarbakka. Þar var tekið á móti gestunum með kaffi og köku, slúðri og músi músí með börnunum. Reyndar var þögnin og hreina loftið svo mikið að ekki leið á löngu þar til Forskaren fór að finna til mikillar syfju og einkennilegrar tilfinningar, en sumir kalla það afslöppun....eða slökun...höfuðborgarbúar fóru þó sælir og ánægðir heim, allir sem einn. Ég kom svo hingað heim í Kópavoginn og fékk mér einn bjór og þreytan eftir fjöruferðina leið fljótt úr mér. En svona fyrst einhver var að tala um lélegan skáldskap og að kveða hvorn annan í kútinn, þá er kannski við hæfi að birta eitt af ljóðunum sem skrifuð voru fyrsta árið mitt í háskólanum og sjá hvort einhverjum ónefndum lítist betur á þetta : )

Is happiness just a fleeting moment?

Is is just one second that shoots through your heart

In an instant.

Your world lights up and you feel all your feelings,

and then it is gone,

just like the moment


Wednesday, May 11, 2005

Tapað fundið!

Hér tilkynnist að hafin er leit
Að Kokkálaða kokkinum sem fór upp í sveit
Um afdrif hennar því miður engin veit
En einhver sagði að hann hefði séð hana á beit
Hoppandi úti í haga alveg eins og geit
Syngjandi hástöfum ,,Pan is great!"
Við skulum bara vona that it is not too late
Og ef einhver hana sér kallið þá í hjálparsveit


Sunday, May 08, 2005

Sunnudagur til sælu

Búin að eiga hinn besta sunnudag. Það er einmitt svona sem maður vill eyða þessum dögum. Haldiði ekki að Forskaren hafi vaknað eldhress klukkan 7.30 (nákvæmlega) og drifið sig á hlaupabrettið (búin að fá nóg af því að hlaupa útum öll engi eins og einhver brjáluð geit).
Eftir það var farið og borðað hádegismat með Grumpu og ýmis hernaðarleyndarmál rædd. Svo var farið í Háskólann eftir það og hlustað á Herr Flick segja frá hvernig þjóðverjar töpuðu stríðinu í seinni heimstyrjöldinni. Á eftir honum kom afkomandi Thors ættarinnar og sagði að þetta hefði eiginlega verið bara allt Íslendingum að þakka, alveg eins og Franska byltingin var allt íslandi að þakka, gott ef hann skellti ekki Kúbudeilunni og kalda stríðinu þarna inn í líka. Já, okkur Íslendingum er sko ekki fisjað saman. Við erum bara ekki að láta fara mikið fyrir okkur og þykjumst bara vera smáþjóð, en undir niðri er allt ákveðið í neðarjarðarbyrginu undir löggustöðinni á Hverfistgötu. Gott ef það er ekki bara verið að redda heimsbyggðinni frá hryðjuverkum í þessum töluðu orðum....
En semsagt, menningarlegri verða sunnudagarnir varla. Forski og Grumpa gengu margs fróðari niður í bæ og enduðu heima hjá Grumpu í kaffi og með því. Forski var reyndar orðin svo aðframkomin af súkkulaði skorti að hún réðst á sunnudagsmyntusúkkulaðið hennar Grumpu og gott ef hún beit hana ekki í puttann í leiðinni. Grumpa tók þá pönnukökupönnuna og barði Forska í hausinn svo söng í. DV er búin að hafa samband við okkur og spyrja hvort við viljum koma í forsíðuviðtal. Grumpa ætlar að halda á pönnunni og Forski ætlar að vera útötuð í myntusúkkulaði. Svo kennum við bara kerfinu um og segjum að það hafi svikið okkur og heimtum bætur og ókeypis súkkulaði og pönnukökur næstu 30 árin.

Saturday, May 07, 2005

Loksins frjáls!

Stúdentinn loksins orðin frjáls kona og getur nú byrjað að eyða sumrinu á kaffihúsum og í sundlaugum bæjarins, ásamt því að lesa um endurreisnina og sænska tungumálaheimspeki að sjálfsögðu. Forskaren er byrjuð á Svenska språket; grundlig analysering, nummer tre...
Annars rankaði Forskaren við sér í morgun úti á engi í evuklæðunum einum saman með gras í munninnum og Þegar ég leit í kringum mig sá ég móður jörð á harðahlaupum í háleitri náttúrunni í kringum Norræna húsið. Annars er búið að skila öllum ritgerðum og svara öllum prófspurningum, þannig að núna er bara að fara að skipuleggja Eurovision party sem haldið verður heima hjá Forskaranum 21.maí. Það var ákveðið á stjórnarfundi bloggara núna klukkan 19.23. Og Þar sem Forskaren og Grumpa eru báðar miklar áhugakonur á grískum bókmenntum, grískri matargerð og að ógleymdum íðilfögrum grískum karlmönnum sem kunna að vitna í Hómer án þess að stama, og vita auk þess allt um Eros og Pan, þá ákváðu þær að skella sér í pílagrímsför til fyrirheitna landsins á næsta ári. Núna verður semsagt farið að æfa grískuna og helst þarf að læra að lesa Ódysseifskviðu aftur bak og áfram (á grísku) áður en lagt er af stað. Grumpa og Forskaren urðu reyndar svo glaðar af að tala um Pan og Eros í Grikklandi svona lengi að þær enduðu í hillunum í Mál og menning og fundu allskyns lesefni um hvernig eigi að tæla Grikkja á þremur dögum og hvernig á að segja ,,Eina kolkrabbasamloku með osti og skinku og engu majonesi, takk, og gætirðu svo sagt mér hvar hofið hans Pans er?"

Tuesday, May 03, 2005

Vor í huga

Góðan daginn allir saman,
Núna er farið að saxast á prófin og ritgerðirnar og ég sé loksins fyrir endann á þessu öllu saman. Forskaren var orðin svo hæper af allskyns isma að hún stóð sjálfa sig að því að tala látlaust þó að engin væri nálægt. Hárið er allt komið í flækju og allt er í drasli í kringum mig. Uppvaskið hrúgast upp og fötin sömuleiðis. Það eru bækur hérna útum allt og geisladiskarnir sömuleiðis. Tölvan er komin í overdrive eins og kaffivélin. Annars er mjög gaman að fylgjast með öðrum stúdentum í sama ástandi. Ég átti til dæmis leið upp í Árnagarð í gær og er ekki frásögu færandi nema að útgangurinn á liðinu þarna uppfrá var ekki beint til fyrirmyndar. Ekki það að ég passaði ágætlega í hópinn með mitt rótaða hár og í sama jogginggallanum síðan í apríl. Kannski er hægt að efna til keppni og gefa verðlaun fyrir þreytulegasta og verst farna stúdentinn. Sá sem vinnur fær glæsileg verðlaun....annars dettur mér ekkert í hug sem geta verið góð verðlaun fyrir svona glataða keppni.
Annnrs, að öðru. Forskaren getur nú ekki verið frægur fyrir að vera í bókmenntafræði án þess að hafa séð handritin góðu. Þannig að einn góðan veðurdag í seinustu viku fór Forskaren í Þjóðmenningarhúsið og skoðaði íðilfögru handrit vora Íslendinga. Þetta eru tvímælalaust gersemar Íslands og gersemar miðaldabókmennta heimsins. Ég verð nú að viðurkenna að það munaði litlu að hægri höndin yrði lögð á hjartastað þegar Möðruvallabók og Flateyjarbók voru litnar augum.
Stórmerkilegt safn og núna hvet ég alla tölvuleikja og kvikmyndanörda til þess að klæða sig í háskóna og fara og kíkja á skruddurnar góðu. Og það sem meira er að engin þarf einu sinni að hætta sér útfyrir 101.

Sunday, May 01, 2005

Geifuglinn og Goethebeinið

Forskaren er búin að komast að því eftir ítarlegar rannsóknir á Geirfulginum í Nauthólsvíkinni að Geirfuglinn dó út vegna þess að það vantaði í hann Goethebeinið. Eins og allir vita, þá er sá sem hefur Goethebeinið í sér, með eindæmum gott skáld og orðheppin einstaklingur. Með rannsóknum er Forskaren til dæmis búin að komast að því að Grumpa hefur þetta bein í sér og allt bendir til þess að Móðir Jörð hafi að minnsta kosti tvö. Í Kokksa fannst eitt en í því tilfelli var um uppvaksarbein að ræða. Í Hammer fannst kannski ekki rómanstískt Goethebein, heldur meira í laginu eins og Motorhead. Það er enn verið að rannsaka Monopoly þar sem hún les Time og Newsweek meira en nokkur annar og þykir með eindæmum hörð í viðskiptum. Það er þess vegna verið að athuga hvort beinið finnist kannski í nefinu á Monopoly. En í Tensai San fannst stórskrítið bein og líktist það ekkert Goethebeininu góða. Hér er talið um stafræna stökkbreytingu að ræða. Ætlunin er að ná Tensai einhvern veginn svo hægt sé að koma henni í einangrun og í frekari rannsóknir....Forskaren er farin að halda að hann sé Übermensch eftir allar þessar uppgötvanir. Núna ætlar Forskaren að fá sér tvær róandi pillur og taka nokkra tetris í tölvunni.