Forskaren

Thursday, July 28, 2005

Gifting framundan

Hey, vitiði hvað ég er að spá í að gera?? Ég er að spá í að halda brúðarkjólnum og það sem meira er, ég er að spá í að giftast bara sjálfri mér!! Er það ekki bara það besta í málinu? Hún Elísabet Englandsdrottning giftist Englandi hérna í den og ég las einu sinni um konu sem giftist sjálfri sér. Ég veit reyndar ekki alveg hvernig giftingin sjálf fór fram í kirkjunni en það er alltaf bara hægt að nota ímyndunaraflið með það. Síðan ætla ég að halda veislu eftir á og bjóða öllum vinum og vandamönnum. Ég ætla að hafa Grumpu, Tensai og Kokksa sem brúðarmeyjar og ein af þeim keyrir litlum dúkkuvagni niður kirkjugólfið með dúllurnar mínar tvær sitjandi í. Klói litla og Dafnis verða með svona litlar blúnduhúfur á hausnum og mjálma í takt við tónlistina.
Þetta verður ábyggilega alveg meiriháttar brúðkaup og það eftirminnilegasta sem haldið hefur verið á Íslandi síðan Hallgerður giftist honum Gunnari. Kannski kem ég lika í Séð og Heyrt, Hér og Nú og svo aldrei að vita að maður kemur á forsíðuna á DV sjálfu. Fyrirsögnin gæti verið á þá leið: Orðin leið á að bíða eftir prinsinum og gerði þetta bara allt saman sjálf. Grét af gleði, varð ólétt eftir Guð og svo af geimveru og flaug síðan heim til sín á hjóli....sjáiðið bara myndirnar!!!! Kannski eitthvað á þá leið.

Tuesday, July 26, 2005

Komin aftur

Þá er maður loksins búin að jafna sig aðeins á sjokkinu og rómantíkinni í júní og júlímánuði. Ekki átti ég nú von á svona rosalegu sumri eins og raunin varð. Ég man það bara að á kvöldi þann 11. júní síðastliðinn ákvað ég skyndilega að fara út í góða veðrið og fá mér tvo bjóra, og svo veit ég ekki fyrr en ég er komin í dramasamband dauðans þar sem J.R. og Cliff Barnes eru bara að leika sér í sandkassa í samanburði. Hvað gerðist eiginlega? Ég bara spyr og einhver hefur svör handa mér þá má sá hinn sami gjarnan senda mér póst.
Annars fór ég á War of the Worlds um daginn. Alveg rosalega góð mynd hreint út sagt. Mér fannst hún mjög spennandi og góður leikur í henni. Ég mæli með henni og þó svo að allir fíli ekki Tom Cruise að þá er hann barasta fínn í þessari mynd.
Jæja, hádegistmaturinn búin og best að koma sér upp úr stólnum og halda áfram að lifa þessu dramatíska lífi. Það er allavega ekki eins og ég hafi ekki nógu mikið til að skrifa um á næstunni....
Það er aldrei að vita að meistaraverkið fæðist kannski úr þessu öllu saman.

Saturday, July 16, 2005

Að vinna á laugardegi

Jæja, enn einu sinni í vinnunni. Ég er bara alltaf vinnandi svei mér þá. Og það er ekki eins og ég sé að græða einhvern pening á því að vinna hérna því að ég sé alltaf svo mikið spennandi á útsölunni og enda með að eyða öllum peningunum sem ég er að vinna mér inn. Ég er nefnilega með svo miklar áhyggjur af því að drepast fljótt og þurfa að borga morðfjár í jarðarfjör.... þannig að ég er alltaf að kaupa mér eitthvað megrandi og fegrandi. Kannski ég lifi eitthvað lengur ef ég lít rosalega vel út alltaf....hmmm.
Annars er Forski enn í sæluvímu eftir að hafa loksins fundið hann Eros sinn og nú er það bara næst á dagskrá að finna sér íbúð og brúðarkjól, barnabílstól og uppskrift af marens.

Thursday, July 14, 2005

Að duga eða drepast

Heyrðu, sáuð þið fréttina í Fréttablaðinu um daginn? En hún var um það að það er víst rosalega dýrt að deyja!! Ég hef sko sannarlega ekki efni á því að drepast núna. það kostar alltof mikið maður. Ég ætla þess vegna að fara í fegrunaraðgerðir fyrir morðfjár og í allskyns vítamínklúbba og aðrar aðgerðir til að koma í veg fyrir að ég drepist strax. Svo kostar það mig svo mikið að halda í mér lífinu allan þennan tíma, að þegar ég er orðin 120 ára og lít enn út eins og Pamela Anderson þá hef ég alls ekki efni á að drepast. Þá verð ég að taka það til bragðs að tala við Dorian Gray og athuga hvað hann getur gert fyrir mig. Æi, já, það kostar sko allt pening í dag. Frekar flyt ég í krukku niður á torgi og verð gömul og krumpuð og útbreiði heimspeki mína, sem er að sjálfsögðu að ekkert skiptir máli í lífinu í rauninni nema ástin. En það er eins og heimspekingurinn sem bjó í krukku á torginu í Aþenu og breiddi út heimspeki sína. Alexander mikli kom eitt sinn til hans og spurði hann hvað hann vildi. hann gæti fengið hvað sem er, það eina sem hann þyrfti að gera var að nefna það. Heimspekingurinn lítur upp á Alexander og segir: Það eina sem ég vil biðja þig að gera fyrir mig er að færa þig, því að þú skyggir á sólina. Ekki slæm heimspeki það.

Tuesday, July 12, 2005

Þriðjudagur til þrautar

Jæja, það varð þó aldrei að hún Grumpa yrði fullorðin og tæki upp á því að eiga afmæli svona um mitt sumar. Ég óska henni hér með til hamingju með afmælið. Megi allir klappa fyrir henni í vinnunni og vonandi fær hún rauðan dregil frá Hlemmi og heim til sín þegar hún hoppar glöð úr strætó í dag. En svo er það nú gjöfin. Hvað á maður eiginlega að gefa grumpu sem á bæði kanínu og skriðdýr? Hmmm, ekki er hægt að gefa henni kettling allavega. Hún á ekki börn í buru þannig að ekki er hægt að gefa henni barnafestingar á ísskápinn og klósettið. Hún er náttúrulega búin að ferðast út um allan heim þannig að maður getur svosem gefið henni uppblásna blöðru af heiminum.... nei, ekki nægilega góð hugmynd. Ekki er heldur hægt að gefa henni DVD eða videomyndir, því að Grumpa á hvorki sjónvarp né video/DVD tæki. Og ekki er það af sökum fátæktar, nei, það er vegna þess að Grumpa er ein af fáum manneskjum sem áttar sig á því hversu heimskulegt sjónvarpið er. Æi, kannski gefi ég henni bara eitthvað sem mig langar rosalega í og svo fæ ég það bara lánað hjá henni....
Annars út í aðra sálma. Hvað er málið með þessa leiðinlegu Coldplay hljómsveit?? Að hlusta á einn cd með þeim er torture. Ég legg til að þeir í fangelsinu í Kúbu kaupi alla diskana þeirra og píni fangana með tónlist frá Coldplay.

Sunday, July 10, 2005

Sunday afternoon

Innflutningspartíið þeirra Hammer og Tensai San tókst nú bara með eindæmum vel. Allir voru voðalega glaðir og margar skemmtilegar sögur rifjaðar upp svona eins og eplasnafskvöldið góða (að sjálfsögðu) og mikið var talað um köngulær og nýi ástarguðinn hans Forska vissi nú töluvert um slíkan ófögnuð þar sem hann bjó í Ástralíu í den. Grumpenhofen lék líka á alls oddi eins og venjulega og hélt ræðu um ást sína á hillbillies í Ameríku. Ekki veit hvort það var til þess að reyna að plata Eros minn eitthvað eða hvað vakti eiginlega fyrir kellu. Hann Eros minn og Hammer enduðu svo á kvikmyndanördatrúnó og komu upp um sig með því að fara að tala um uppáhaldskvikmyndirnar sínar sem voru til dæmis Blackula(???) Jugde Dredd og gott ef að Bert and Ernie komu ekki til tals svei mér þá. Má ég þá frekar biðja um Miami Vice og Don Johnson í mokkasíunum sínum. Annars væri ég svosem ekkert á móti því að fá svona eins og eitt videokvöld hjá Hammer fljótlega. Það væri gaman að horfa á Magnum seríu eitt og tvö (það mundi kannski taka tvo daga reyndar) og svo kannski einn Colombo þátt og skella svo einum Macloud þætti í. Þið munið, kallinn með kúrekahattinn og yfirvaraskeggið. Forski var svo hrifin af honum þegar hún var níu og hálfsárs. En allavega. Nú styttist í sveitarferðina ógurlegu sem nokkrir aðilar ætla að fara í. Það er nú kannski ráðlegt að undirbúa sig eitthvað fyrir þessa ævintýraför. Eins og til dæmis að fara í húsdýragarðinn og fá að klappa gæsum og kindum.
Jæja, best að fara og reyna að vinna eitthvað.

Friday, July 08, 2005

Hundadagar í júlí

Já mikið rétt. Júlí er komin og veðrið er orðið vitlaust eins og venjan er. Við bíðum bara eftir Desember því þá kemur góða veðrið. Annars er allt í lukkunarstandi enn hjá Forskarnum og aldrei hefur ein manneskja brosað svona mikið á einum mánuði. Ég held að ég sé komin vel yfir kvótann fyrir árið svei mér þá. Ekki að það er ekkert á döfinni að fara neitt að hætta að brosa sko. En annars er mikið um að vera þessa helgina eins og alltaf....Núna í kvöld á að fara út að borða með kellingunum í ættinni og verður það áhugavert eins og venjulega að sjálfsögðu. Svo á loksins að bregða undir sig betri fætinum (eða höndum) og fara í fyrsta opinbera boðið hjá Tensai San og Hammer. Nú þar sem þau eru komin í kotið góða og heyrst hefur víst að þau séu búin að innrétta íbúðina sem dvd leigu. Annars verða vonandi skemmtilegir partíleikir í gangi eins og keppni um hver getur skvett mestu vatni á nágrannann fyrir neðan og hversu langt drífur kötturinn út um gluggann.

Monday, July 04, 2005

Bræðurnir Ormsson og fleira

Jú, það er mikið rétt sem Grumpa segir á bloggsíðunum þennan morgun. Núna eru Forskaren og Kokksi orðnar yfirlýstir Duran Duran aðdáendur. Núna er sko ekkert verið að fara með eitt né neitt í felur, heldur bara komið út úr skápnum eins og maður er klæddur (nota bene í herðapúða og neongrifflur). Simon Le Bon er nú bara maður mjög myndarlegur og John Taylor ekki af verri endanum heldur. svo þegar þeir tóku Save a Prayer þá ætlaði allt gjörsamlega að rifna af gleði og hamingjutárum. Kveikjararnir voru að sjálfsögðu hátt á lofti og allir sungu með í gegnum tárin. Kokksi var næstum því fallin í öngvit af gleði og öðrum æsingi og þurfti að leggjast á dýnu í lokin til að jafna sig. Geri aðrir betur en þetta...
Jú, svo brá maður sér auðvitað í betri skóna á laugardagskvöldinu og fór að sjá Wig Wam, sem er early nineties grúppa dauðans og allir kallarnir komnir hátt á fimmtugsaldurinn. Þeim er þó alveg sama og slefuðu upp í saklausar meyjar sem voru hálf meðvitundarlausar af hrifningu. Forski fór að sjálfsögðu með nýja prinsinum en eitthvað áttum við erfitt með að vera rómó með Michael Bolton undirspili því að þegar við pöntuðum vínið og rósirnar á barnum á Gauknum, þá þurfti barþjónninn að hlaupa út á Vínbarinn held ég til að ná í ódýrt hvítvín og tvö vínglös. Við gengum svo glöð með blik í augum um staðin en ekki fór betur en svo að allir gengu á manninn minn og það fór eiginlega meira rauðvín á skyrtuna hans heldur en ofan í hann. Ég slapp sem betur fer við öll vínslys enda í þessum nýja fína topp.
Ég segi nú samt, svona til að svara Grumpu, að þá eru nú Duran Duran meiri karlmenni svona fljótt á litið. Þeir ganga í hvítum jökkum, með herðapúða og svo eru þeir líka með sítt að aftan og kunna að hoppa og snúa sér í marga hringi. Geri aðrir betur!